Góð spilamennska skilaði Birgi á lokaúrtökumótið

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Ljósmynd/GSÍ

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG verður með á lokastigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Birgir komst í gegnum annað stigið sem lauk í Madrid í gær með góðri spilamennsku og lék 72 holur á samtals 13 undir pari. Haraldur Franklín Magnús úr GR lék einnig á öðru stiginu en komst ekki á lokastigið. Haraldur lék í Almería en annað stigið fór fram á fjórum stöðum á Spáni. Haraldur lék holurnar 72 á samtals fjórum undir pari. Var hann fjórum höggum frá því að komast áfram.

Haraldur var þó í baráttunni fram á lokadaginn og var á sjö undir pari samtals fyrir síðasta hringinn í gær. Þar var hann á höggi undir pari eftir þrjár holur og á parinu eftir sex holur. Eftir það lék Haraldur á þremur yfir pari og hafnaði í 37. sæti. Aðeins einn fugl var á skorkorti Haraldar í gær og það reyndist of lítið þegar upp var staðið. Til samanburðar fékk Haraldur fjóra fugla og einn örn á þriðja hringnum og sex fugla á öðrum hringnum.

Birgir virðist hafa haft góð tök á sínum leik í mótinu því hann gerði fá mistök. Birgir fékk aldrei verra skor en skolla á dögunum fjórum og voru skollarnir aðeins sjö. Glæsileg byrjun kom Birgi í góða stöðu og gaf honum sjálfsagt byr undir báða vængi. Birgir lék fyrsta hringinn á 66 höggum og var þá sex undir pari eftir fyrsta daginn. Hann bætti smám saman ofan á það og komst örugglega áfram. Birgir var á meðal þrettán efstu og hann hefði getað leikið á 10 undir pari samtals og komist áfram.

Birgir færir sig nú til á Spáni og leikur á lokastiginu í Tarragona. Ballið byrjar 10. nóvember en á lokastiginu þurfa kylfingarnir að leika sex hringi á jafn mörgum dögum eða 108 holur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert