Guðrún Brá á toppnum í Barcelona

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er ríkjandi Íslandsmeistari.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er ríkjandi Íslandsmeistari. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í efsta sæti og í harðri baráttu um sigurinn á lokamóti LET Access mótaraðarinnar í golfi, næststerkustu atvinnumótaraðar Evrópu.

Leikið er á Real Club de Golfe El Prat vellinum við Barcelona á Spáni og eftir tvo hringi af þremur er Guðrún Brá samtals á -2 höggum, jöfn Anais Meyssonnier í efsta sætinu. Þrír kylfingar koma næstir á eftir þeim á -1 höggi.

Guðrún Brá lék á pari vallarins í dag eftir að hafa leikið á -2 höggum í gær. Í dag fékk hún fjóra fugla en einnig fjóra skolla.

Skorið verður niður eftir daginn í dag og munu 45 efstu kylfingarnir, af þeim 84 sem hófu leik, leika lokahringinn á morgun.

Alls hefur Guðrún Brá leikið á 11 mótum á LET Access mótaröðinni á þessu tímabili. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fimm þeirra og er hún í 71. sæti á peningalista mótaraðarinnar fyrir mótið í Barcelona.

Guðrún Brá mun leika á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina, sterkustu mótaröð Evrópu, í Marokkó 16.-20. desember. Hún komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins sem lauk um síðustu helgi í Marokkó.

mbl.is