Frábær byrjun Birgis á lokaúrtökumótinu

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is/Árni Sæberg

Birgir Leifur Hafþórsson spilaði í dag fyrsta hringinn af sex á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi, en mótið fer fram rétt utan við Barcelona á Spáni.

Óhætt er að segja að Birgir Leifur hafi byrjað mótið vel, en hann fékk fjóra fugla á fyrstu fimm holunum. Á seinni níu holunum bætti hann tveimur fuglum við og einum skolla og spilaði því samtals á fimm höggum undir pari eða 67 höggum alls.

Birgir Leifur er jafn fleiri kylfingum í 19.-32. sæti eftir þennan fyrsta hring, en tveir kylfingar eru efstir og jafnir á níu höggum undir pari. Alls verða leiknir sex hringir og alls hafa 156 keppendur tryggt sig inn á lokaúrtökumótið og koma þeir frá 26 löndum.

Birgir Leifur er að taka þátt á lokaúrtökumótinu í 14. sinn. Alls fá 25 efstu í mótslok keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert