Guðrún fer á teig á sunnudag

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi úr Keili, mun hefja leik á sunnudaginn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi. 

Mótið fer fram hjá Amelkis golfklúbbnum í Marrakech í Marokkó og eru spilaðir fimm hringir eða 90 holur áður en úr því fæst skorið hvaða kylfingar fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni árið 2019. 115 kylfingar keppa í mótinu og leika fjóra hringi til að byrja með á tveimur völlum, tvo hringi á hvorum velli. Þá verður keppendafjöldi skorinn niður og efstu sextíu leika einn hring til viðbótar. 

Fimm efstu kylfingarnir fá fullan keppnisrétt á mótaröðinni og ættu að komast inn í flest ef ekki öll mót. Kylfingarnir í sætum 6 - 25 komast einnig inn á mótaröðina en verða aftar í forgangsröðinni. 

Guðrún Brá lék á fyrri stigi úrtökumótanna í síðasta mánuði og var þá einnig keppt í Marokkó. Guðrún lék þá á átta yfir pari samtals og varð í 21. - 22. sæti. 

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni verður með keppnisrétt á mótaröðinni á næsta ári eins og síðustu ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert