Valdís á meðal neðstu í Abu Dhabi

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir.

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni, átti erfitt uppdráttar á öðrum hring í Abu Dhabi í dag þar sem fyrsta mót ársins á Evrópumótaröðinni, Fatima Bint Mubarak Ladies Open, fer fram.

Valdís spilaði á sex höggum yfir pari á fyrsta hring í gær en í dag fataðist henni flugið enn frekar og lék á sjö höggum yfir pari. Hún byrjaði þó vel á hringnum, fékk tvo fugla á fyrstu tveimur holunum og einn enn á fyrri níu. Hún fékk hins vegar þrjá skolla, tvo tvöfalda skolla og einn þrefaldan skolla á hringnum og kom í hús á 79 höggum, sjö yfir pari.

Valdís er því samtals á 13 höggum yfir pari og kom í hús í 54. sæti af 56 keppendum, en nokkrir kylfingar eiga þó eftir að ljúka leik í dag.

mbl.is