Fowler fékk huggulega kveðju

Áhorfendur fylgdust vel með Rickie Fowler á lokahringnum.
Áhorfendur fylgdust vel með Rickie Fowler á lokahringnum. AFP

Ekki eru það einungis yngstu kynslóðirnar (forseti Bandaríkjanna) sem nýta sér samfélagsmiðilinn Twitter. Goðsögnin Jack Nicklaus sendi Rickie Fowler huggulega kveðju í tísti eftir sigur Fowler á Opna Phoenix-mótinu á PGA-mótaröðinni. 

Nicklaus segir að hann og eiginkonan hafi fylgst spennt með framgangi mála þar sem Fowler landaði sigri eftir nokkurt hark. Var hann með góða forystu en kastaði henni frá sér um tíma. Með góðri spilamennsku á lokaholunum tókst honum þó að sigra með tveggja högga mun. 

Fowler hefur oft átt erfitt uppdráttar á lokahring í mótum. Var þetta í sjöunda skipti sem hann var með forystu eftir 54 holur í móti á PGA-mótaröðinni en aðeins í annað sinn sem honum tekst að sigra við slíkar aðstæður. Auk þess hefur Fowler ekki tekist að sigra á risamóti þótt hann hafi oft verið í baráttunni. 

Jack Nicklaus er sigursælasti kylfingur sögunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert