Mickelson hitti allar brautir af teig

Phil Mickelson.
Phil Mickelson. AFP

Þau fáheyrðu tíðindi gerðust á fyrsta hring AT&T mótsins á PGA-mótaröðinni að gamla kempan Phil Mickelson hitti allar brautirnar af teig á Spyglass Hill-vellinum í Kaliforníu. 

Ekki er reyndar svo óalgengt að bestu kylfingar heims nái slíku en Mickelson hefur hins vegar verið þekktur fyrir annað en nákvæmni á teig. Þvert á móti hefur hann ítrekið verið gagnrýndur á sínum ferli fyrir að taka áhættu af teig sem stundum hefur komið honum í mikil vandræði

Mickelson lék á 65 höggum og er á sex undir pari eftir fyrsta hringinn. Hitti hann flatirnar í tilskildum höggafjölda í 94,44% tilfella á hringnum og kunni því vel við sig á brautunum. 

Mótið fer fram á þremur völlum en einnig er leikið á hinum kunna Pabble Beach velli sem og Monterey Peninsula. Löng hefð er fyrir mótinu og var það lengi kennt við skemmtikraftinn Bing Crosby en því var hætt árið 1985. Crosby kom mótinu á koppinn árið 1937 og fyrsti sigurvegarinn var enginn annar en Sam Snead.

Brian Gay og Scott Langley eru efstir á sjö undir pari samtals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert