Haraldur í 5. sæti - Guðmundur þriðji á stigalista

Haraldur Franklín Magnús lék vel á Spáni um helgina.
Haraldur Franklín Magnús lék vel á Spáni um helgina. Ljósmynd/seth@golf.is

Haraldur Franklín Magnús náði bestum árangri af fimm íslenskum kylfingum sem kepptu á móti á Lumine-golfsvæðinu á Spáni um helgina. Mótið er hluti af Nordic Tour-atvinnumótaröðinni.

Haraldur endaði í 5. sæti á samtals -8 höggum eftir að hafa leikið frábærlega á síðustu tveimur hringjunum, sem hann fór á -4 höggum hvorn.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson endaði í 13. sæti á -5 höggum. Aron Bergsson, Axel Bóasson og Andri Þór Björnsson komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Eftir þetta mót er Guðmundur Ágúst í 3. sæti stigalista mótaraðarinnar og Haraldur í 11. sæti. Aðrir íslenskir kylfingar eru mun neðar. Að miklu er að keppa en fimm stigahæstu kylfingarnir í lok keppnistímabilsins komast í Áskorendamótaröðina, sem er næststerkasta mótaröð Evrópu á eftir Evrópumótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert