Valdís langefst eftir magnaðan hring

Valdís Þóra Jónsdóttir fór á kostum í nótt.
Valdís Þóra Jónsdóttir fór á kostum í nótt. Ljósmynd/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir lék stórkostlega á fyrsta hringnum á Women's NSW Open í golfi í Ástralíu í nótt og er með góða forystu í efsta sæti mótsins.

Þessi 29 ára gamla Skagamær lék fyrsta hringinn á aðeins 63 höggum eða 8 höggum undir pari vallarins. Hún er sem stendur með þriggja högga forskot á næsta kylfing, hina frönsku Astrid Vayson de Pradenne.

Mótið er sameiginlegt verkefni hjá Evrópumótaröðinni og áströlsku LPGA-mótaröðinni. Það fer fram á Queanbeyan Golf Club, rétt utan við Canberra, höfuðborg Ástralíu.

Valdís hóf leik á 10. teig og náði sér strax í fugl. Hún fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum brautunum sem hún spilaði en svo skolla á 18. braut. Skollinn virtist kveikja í Valdísi því hún fékk tvo fugla og svo örn á brautum 1-3, og fugla á 7. og 9. braut sem var sú síðasta hjá henni í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert