Síðasta holan skemmdi fyrir Ólafíu

Ólafía Þórunn er úr leik.
Ólafía Þórunn er úr leik.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er úr leik á Skyigolf-meistaramótinu í golfi eftir tvo hringi. Hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn í dag, en mótið fer fram í Charlotte í Bandaríkjunum. 

Ólafía lék annan hringinn í dag á 75 höggum, þremur höggum yfir pari, og var samanlagt á þremur höggum yfir pari eftir tvo hringi. Hún var tveimur höggum frá því að fara í gegnum niðurskurðinn. 

Íþróttamaður ársins 2017 var í fínni stöðu fyrir lokaholuna; á einu höggi yfir pari og á leiðinni í gegnum niðurskurðinn. Hún fékk hins vegar tvöfaldan skolla á síðustu holunni og féll því úr leik. Hún fékk alls þrjá fugla, fjóra skolla, einn tvöfaldan skolla og tíu pör í dag. 

Mótið var það fyrsta á Symetra-mótaröðinni árið 2019, en það er næststerkasta mótaröð Bandaríkjanna. Ólafía náði ekki að halda keppnisrétti sínum á LPGA á síðasta ári, en þar lék hún í tvö ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert