Valdís enn með forystu

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Haraldur Jónasson/Hari

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni á Akranesi er enn með forystuna á Opna NSW-mótinu í golfi á Evrópumótaröðinni. Valdís hefur lokið tveimur hringjum en mótið fer fram í Ástralíu og lauk Valdís leik á öðrum hringnum rétt í þessu.  

Valdís byrjaði með miklum látum aðfaranótt fimmtudags og lék sinn besta hring í móti erlendis á ferlinum. Valdís lék þá á 63 höggum sem er átta höggum undir pari vallarins. Var hún með þriggja högga forskot að fyrsta keppnisdegi loknum. 

Valdís var aftur undir pari í nótt og var á 70 höggum. Hún er því samtals á níu undir pari. Frábær frammistaða og er Valdís með tveggja högga forskot á næsta kylfing sem er Þjóðverjinn Karolin Lampert. Tveir kylfingar eru á -6 höggum og þrír á -5 höggum. 

Skorkortið var nokkuð skrautlegt eins og stundum hjá Valdísi sem er sókndjörf á golfvellinum. Fékk hún einn örn á hringnum, fjóra fugla, átta pör og fimm skolla. 

Íslenskur kylfingur hefur aldrei sigrað í Evrópumótaröðinni, hvorki kvenna né karla. 

Valdís leggur af stað á þriðja hring laust fyrir miðnætti að íslenskum tíma í kvöld, eða um tíuleytið á laugardagsmorgni í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert