„Barðist eins og ég gat“

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/LET

„Spilamennska helgarinnar er auðvitað smá vonbrigði en ég barðist eins og ég gat,“ sagði kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir eftir að hafa hafnað í fimmta sæti á NWS-golfmótinu sem lauk í Nýja-Suður-Wales í Ástralíu um helgina. Mótið er liður í Evrópumótaröðinni.

Valdís var með forystu eftir fyrstu tvo hringina á mótinu. Hún spilaði fyrsta hringinn á 63 höggum og annan á 70 höggum. Þriðja hring lék hún á 72 höggum og lokahringinn aðfaranótt sunnudags á 73 höggum. Valdís endaði samtals á sex höggum undir pari, en mótið markar endalokin á veru Valdísar í Ástralíu í bili.

„Þetta eru búnar að vera langar og strembnar sex vikur. Bakið hefur verið að hrjá mig síðan í ágúst en síðustu vikur hefur það verið mjög slæmt. Ég náði þó að enda síðustu vikuna á jákvæðum nótum,“ sagði Valdís.

Hún er nú farin til Suður-Afríku og spilar á móti þar sem hefst á fimmtudag. „Svo kem ég heim í smá pásu til þess að láta líta á bakið og ákveða hvað ég þarf að gera til þess að ná því góðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert