Eyjaholan fór illa með Tiger Woods

Tiger Woods stendur á 17. flötinni í dag og botnar …
Tiger Woods stendur á 17. flötinni í dag og botnar ekkert í sjálfum sér. AFP

Tiger Woods lék sautján holur af átján prýðilega á Players Championship mótinu á Flórída en setti tvo bolta í vatnið þegar hann glímdi við eyjaholuna frægu sem er 17. holan á TPC Sawgrass. Annar reynslubolti, Jim Furyk, fór á kostum í dag og er meðal efstu manna. 

Tiger er samtals á þremur undir pari og hefur leikið á 70 og 71 höggi. Hann hóf leik á 10. teig í dag og var kominn þrjú högg undir parið þegar hann kom á 17. holuna sem er par 3. Tiger sló fyrstu tvö höggin í vatnið og fékk 7 á holuna. Var það í eina skiptið á hringnum þar sem hann missti parið. 

Jim Furyk átti frábæran dag og fékk átta fugla og tíu pör. Er hann samtals á níu undir pari eftir hringina tvo. Er sem stendur í 2. sæti á eftir Tommy Fleetwood en Tiger er í 31. sæti. Margt á eftir að gerast í dag enda eiga margir eftir að skila inn skori og sumir nýbyrjaðir á öðrum hringnum. 

Furyk er 48 ára gamall en í hörkuformi. Hann þekkir völlinn auk þess mjög vel. Er að taka þátt í Players í 23. skipti en býr auk þess í nágrenninu og þekki því hverja þúfu og hvern hól á TPC Sawgrass. 

Jim Furyk
Jim Furyk AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert