Aldurinn bítur ekki á Langer

"Hvað get ég sagt?" gæti Þjóðverjinn Bernhard Langer verið að segja á þessari mynd sem tekin var á 4. holunni á Augusta. AFP

Þjóðverjinn reyndi, Bernhard Langer, hefur náð mögnuðum árangri á Masters-mótinu í golfi sem nú stendur yfir í Georgíuríki. Langer hefur leikið hinn snúna Augusta National völl á höggi undir pari fyrstu 36 holurnar og er á leið í gegnum niðurskurð keppenda. 

Væri þetta ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Langer verður 62 ára í júní. Augusta reynist mörgum heimsfrægum kylfingum á hátindi ferilsins erfiður á meðan Langer er enn í rauðum tölum. (Hin fræga skortafla á Augusta sýnir rauðar tölur þegar keppendur eru undir pari en annars grænar tölur). 

Langer færðist í aukana þegar leið á hringinn í dag. Hann lék fyrsta hringinn í gær á 71 höggi og var á höggi undir pari fyrir daginn í dag. Eftir að hafa lent í erfiðleikum í dag var hann á tveimur yfir pari samanlagt og á þremur yfir pari á hringnum. Langer sem er þekktur fyrir keppnishörku lagaði það til á síðustu fimm holunum þar sem hann fékk þrjá fugla og tvö pör. Lék því hringinn í dag á pari og er samtals á höggi undir pari í 25. sæti. Fékk hann fuglana á 14., 15., og 18. holunni. 

Keppti fyrst á Masters árið 1982

Bernhard Langer er í fantaformi hvort heldur sem horft er til líkamlegs ásigkomulags eða árangurs hans á öldungamótaröðinni. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á Opna breska meistaramótinu á Carnoustie í fyrra og fituprósentan er tæplega há.  

Langer sigraði tvívegis á Masters 1985 og 1993 og þarf því ekki að hafa áhyggjur af keppnisrétti á mótinu. Hann er nú með á Masters í 36. skipti en hann keppti í fyrsta skipti á Masters árið 1982. Þá voru átta ár þar til núverandi meistari, Patrick Reed, kom í heiminn. 

Fjárhagslegt öryggi er sjálfsagt ekki áhyggjuefni hjá Langer en við þetta má bæta að miðað við spilamennskuna þá gætu margar milljónir verið lagðar inn á reikninginn hjá honum á mánudagsmorguninn enda verðlaunafé myndarlegt fyrir þá sem komast í gegnum niðurskurðinn. 

Gamlir meistarar njóta virðingar á Masters og Langer þakkar hér …
Gamlir meistarar njóta virðingar á Masters og Langer þakkar hér stuðninginn á 18. holunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert