Tiger Woods sigraði á Masters

Patrick Reed sigurvegarinn í fyrra klæðir Tiger Woods í græna ...
Patrick Reed sigurvegarinn í fyrra klæðir Tiger Woods í græna jakkann samkvæmt hefðinni. AFP

Ellefu ára bið Tigers Woods eftir sigri á risamóti í golfi lauk á Augusta National í Georgíuríki í Bandaríkjunum í dag þegar hann sigraði á Masters, fyrsta risamóti ársins hjá körlunum. Tiger sigraði síðast á Masters árið 2005. 

Tiger lék í dag á 70 höggum og lauk leik á samtals 13 höggum undir pari. Næstu menn á eftir léku á samtals 12 undir pari. Það gerðu Brooks Koepka, Dustin Johnson og Xander Schauffele sem allir eru Bandaríkjamenn eins og Tiger. 

Er þetta fimmtándi sigur Tigers á risamóti á ferlinum og er hann næstsigursælastur allra á eftir Jack Nicklaus sem sigraði átján sinnum á sínum ferli. 

Tiger Woods á lokahringnum í dag.
Tiger Woods á lokahringnum í dag. AFP

Fyrir sigurinn fær Tiger Woods um 2 milljónir dollara og græna jakkann. Á Augusta ættu menn að þekkja hvaða stærð Tiger notar því hann sigraði nú á Masters í fimmta sinn. Er hann næstsigursælastur allra í sögu mótsins. En eins og í fleiri þáttum þá slær Nicklaus honum við með sex sigra. Tiger fer hins vegar fram úr Arnold Palmer sem sigraði fjórum sinnum. 

Tiger Woods hefur sigrað á Masters á þremur mismunandi áratugum. Fyrsti sigurinn kom 1997 en næstu þrír komu 2001, 2002, 2005 og nú 2019. 

Ferillinn var í hættu

Tiger er fæddur hinn 30. desember 1975 og er því 43 ára gamall. Jack Nicklaus var 46 ára þegar hann sigraði á risamóti í síðasta sinn. Var það einmitt á Masters og gerðist árið 1986. Nicklaus beið þá í sex ár á milli sigra á risamóti. 

Sigur Tigers er geysilegt afrek í ljósi þess sem á undan er gengið. Hann fór í fjórar aðgerðir á fremur skömmum tíma vegna bakmeiðsla. Um tíma var tvísýnt hvort Tiger gæti haldið keppnisferlinum áfram og margir sérfræðingar afskrifuðu þennan sigursæla íþróttamann. Auk þess gekk mikið á í einkalífi Tigers og skilnaður hans og aðdragandinn varð mikið fjölmiðlafóður um heim allan. 

Í fyrra komu vísbendingar um að Tiger gæti aftur unnið risamót. Hann var á meðal efstu manna á síðustu tveimur risamótunum í fyrra, Opna breska meistarmaótinu og PGA-meistaramótinu. Sjálfstraust kappans jókst svo til mikilla muna þegar hann landaði sigri á lokamóti PGA-mótaraðarinnar, The Tour Championship síðasta haust. 

Auk þess mátti sjá að kappinn hafði tileinkað sér meiri auðmýkt og virtist þakklátur fyrir að geta keppt við þá bestu. Hefur hann einnig gefið meira af sér til áhorfenda og annarra keppenda en hann gerði á fyrri hluta ferilsins. Meðal annars þess vegna eru vinsældir hans enn geysilega miklar.

Áhorfendur á Augusta fagna þegar Tiger Woods fékk fugl á ...
Áhorfendur á Augusta fagna þegar Tiger Woods fékk fugl á 16. holunni í dag. AFP
mbl.is