Einn sá erfiðasti á mínum ferli

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Tiger Woods kom sér enn betur fyrir í sögubókum golfíþróttarinnar í gær þegar hann sigraði á Masters-mótinu á Augusta National.

Sigurinn var hans fimmtándi á risamóti í golfi og er hann sá næstsigursælasti í sögunni á eftir Jack Nicklaus sem sigraði átján sinnum.

Fyrir sigurinn fær Tiger Woods um 2 milljónir dollara og græna jakkann. Á Augusta ættu menn að þekkja hvaða stærð Tiger notar því hann sigraði nú á Masters í fimmta sinn. Er hann næstsigursælastur allra í sögu mótsins. En eins og í fleiri þáttum þá slær Nicklaus honum við með sex sigra. Tiger er 43 ára gamall og á þessari öld er líklega enginn íþróttamaður jafn frægur um víða veröld.

Tiger Woods hefur sigrað á Masters á þremur mismunandi áratugum. Fyrsti sigurinn kom 1997 en næstu þrír komu 2001, 2002, 2005 og nú 2019. „Segja má að hringrás hafi orðið því þegar ég sigraði hér árið 1997 var faðir minn á staðnum en nú er ég sjálfur faðir með tvö börn á staðnum,“ sagði Tiger þegar sigurinn var í höfn. „Þessi sigur mun alltaf verða einn sá erfiðasti á mínum ferli vegna þess sem gerst hefur síðustu tvö árin,“ sagði Tiger einnig og vísar þar til þess að ferill hans var í fullkomnu uppnámi vegna bakmeiðsla. Þurfti hann að gangast undir fjórar aðgerðir til að fá bót meina sinna. kris@mbl.is

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »