„Draumur hefur ræst“

Pan Cheng-tsung með verðlaunagripinn.
Pan Cheng-tsung með verðlaunagripinn. AFP

Pan Cheng-tsung frá Taívan fagnaði sínum fyrsta sigri á PGA-mótaröðinni þegar hann bar sigur úr býtum á RBC Heritage mótinu sem lauk í gærkvöld.

Pan lék lokahringinn á 67 höggum eða á fjórum höggum undir pari og lék hringina á 272 höggum eða á 12 höggum undir pari. Bandaríkjamaðurinn Matt Kuchar varð annar á 273 höggum og Bandaríkjamennirnir Patrick Cantlay og Scott Piercy ásamt Íranum Shane Lowry enduðu á 274 höggum.

„Draumur hefur ræst hjá mér. Þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt frá því ég var strákur og það hefur mikla þýðingu fyrir mig að hafa unnið PGA mót,“ sagði Pan eftir sigurinn en hann er 27 ára gamall og er í 113. sæti á heimslistanum.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson, efsti maður heimslistans, var með eins höggs forystu fyrir lokahringinn en hann lék lokahringinn á 77 höggum eða á fimm höggum yfir pari og endaði jafn í 28. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert