Tiger, Molinari og Koepka saman í ráshópi

Tiger Woods tekur við orðu frá Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr …
Tiger Woods tekur við orðu frá Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr í vikunni. AFP

Sigurvegarar síðustu þriggja risamóta verða venju samkvæmt saman í ráshópi fyrstu tvo dagana á PGA-meistaramótinu sem hefsta á fimmtudaginn. Eru það þeir Brooks Koepka, Francesco Molinari og Tiger Woods. 

Verða þeir snemma á ferðinni á fyrsta keppnisdegi á fimmtudaginn. Þeir hefja leik klukkan 8:24 að staðartíma í New York og munu byrja á 10. teig. 

Tiger vann Mastersmótið á dögunum en í fyrra vann Molinari Opna breska meistaramótið og Koepka vann bæði Opna bandaríska og PGA-meistaramótið. 

Að þessir þrír séu saman í ráshópi er nánast endurtekning frá lokadegi Masters nú í apríl eða svo gott sem. Koepka var þá í næstsíðasta ráshópi en Tiger og Molinari í þeim síðasta. Allir þykja þeir líklegir til afreka á PGA-meistaramótinu. 

mbl.is