Vinnur Tiger næsta risamót?

Létt var yfir Tiger Woods á æfingahring í gær.
Létt var yfir Tiger Woods á æfingahring í gær. AFP

Aðdáendur Tigers Woods, sem eru fjölmargir hér á landi, eru farnir að setja sig í stellingar fyrir næsta risamót í golfinu. PGA-meistaramótið hefst á fimmtudaginn og er nú það næsta í röðinni á eftir Masters sem Tiger vann í apríl. 

Tiger Woods hefur nú unnið samtals fimmtán risamót á ferlinum og vantar þrjá slíka sigra til að ná Jack Nicklaus. 

Tiger Woods er til alls líklegur í ljósi þess að hann hefur verið mjög ofarlega á síðustu þremur risamótum. Vann ekki bara Masters í apríl heldur var hann einnig í baráttu um sigur á síðari tveimur risamótunum í fyrra. 

Þrátt fyrir sigurinn á Masters var Tiger Woods ekki mjög stöðugur í upphafshöggunum á Augusta National. Hann veit hins vegar nákvæmlega hvar hann má við því að missa högg til hægri eða vinstri á þeim velli. Margir bíða nú spenntir eftir því að sjá hvort Tiger verði öruggari í teighöggunum á PGA-meistaramótinu. Ekki veitir af þar sem völlurinn, Bethpage Black Course á Long Island, er um 7.500 stikur (e. yards). 

Ekki minnka væntingar stuðningsmanna Tigers við þá staðreynd að Opna bandaríska meistaramótið sem fer fram í júní verður að þessu sinni haldið á Pebble Beach í Kaliforníu. Þar fór mótið einnig fram árið 2000 og sigraði Tiger þá með fáheyrðum yfirburðum. 

Nú vill svo til að Tiger hefur einnig unnið risamót á Bethpage vellinum. Sigraði þar á Opna bandaríska mótinu árið 2002. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert