Valdísi fataðist flugið og Guðmundur næstneðstur

Valdís Þóra Jónsdóttir er í efri helmingnum eftir fyrsta keppnisdag.
Valdís Þóra Jónsdóttir er í efri helmingnum eftir fyrsta keppnisdag. Ljósmynd/LET

Atvinnukylfingarnir Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson léku á Evrópumótaröðunum í golfi í dag og áttu misgóðu gengi að fagna.

Valdís Þóra hóf leik á 15. braut á sínu móti, Jabra-mótinu í Frakklandi, og var á pari fyrir síðustu fjórar brautirnar. Hún fékk þá tvöfaldan skolla og svo tvo skolla í röð, en fugl á síðustu brautinni og endaði því hringinn á +3 höggum.

Valdís er í 39.-57. sæti, sex höggum á eftir efstu kylfingum nú þegar fyrsta keppnisdegi er lokið.

Guðmundur Ágúst átti hins vegar mjög erfitt uppdráttar á Made in Denmark-mótinu í Danmörku, sem hann vann sér sæti á með góðri stöðu sinni á stigalista dönsku atvinnumótaraðarinnar. Guðmundur Ágúst er í næstneðsta sæti, 153. sæti, á +7 höggum eftir að hafa fengið átta skolla en einn fugl á fyrsta hring. Efstu kylfingar eru á -5 höggum.

Guðmundur Ágúst er aðeins fimmti íslenski karlkylfingurinn sem leikur á móti á Evrópumótaröðinni, á eftir Birgi Leifi Hafþórssyni, Heiðari Davíð Bragasyni, Björgvini Sigurbergssyni og Haraldi Franklín Magnús.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd/GSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert