Hákon og Saga leiða í Þorlákshöfn

Saga Traustadóttir hefur tveggja högga forskot í kvennaflokki.
Saga Traustadóttir hefur tveggja högga forskot í kvennaflokki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hákon Örn Magnússon úr GR og Saga Traustadóttir úr GR eru með forystu á Egils Gull-mótinu í golfi sem nú fer fram á Þorlákshafnarvelli í Þorlákshöfn eftir fyrsta hring á mótinu. Leiknir verða tveir hringir í dag og verður þriðji hringur mótsins leikinn á morgun.

Hákon Örn lék fyrsta hringinn á samtals 66 höggum og var fimm höggum undir pari. Hann lék frábært golf og fékk sex fugla og einn skolla og hefur tveggja högga forskot á Daníel Ísak Steinarsson úr GK.

Saga lék fyrsta hringinn á samtals 68 höggum, þremur höggum undir pari, en Saga fékk fjóra fugla og einn skolla á hringnum. Hún hefur tveggja högga forskot á Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur, GOS, sem lék fyrsta hringinn á 70 höggum.

mbl.is