Woodland með eitt högg í forskot

Gary Woodland fagnar á hringnum í gær.
Gary Woodland fagnar á hringnum í gær. AFP

Bandaríkjamaðurinn Gary Woodland er efstur fyrir lokahringinn á Opna bandaríska meistaramótinu á Pebble Beach-vellinum í Kaliforníu. Woodland var efstur eftir 36 holur en ólympíumeistarinn Justin Rose er aðeins höggi á eftir. 

Þeir voru í síðasta ráshópi á þriðja hringnum í gær og verða það aftur í kvöld. Woodland er samtals á 11 undir pari og Rose á 10 undir pari. Woodland lék á 69 höggum og Englendingurinn Rose á 68 höggum. Woodland hefur átt fínan feril á PGA-mótaröðinni en hefur aldrei unnið risamót. Rose sigraði á Opna bandaríska árið 2013 og varð ólympíumeistari 2016. 

Fleiri stór nöfn eiga möguleika og Brooks Koepka á enn möguleika á ótrúlegri þrennu. Hann hefur sigrað á mótinu síðustu tvö ár og er nú á 7 undir pari. Verður hann í næst síðasta ráshópi ásamt landa sínum Chez Reavie frá Bandaríkjunum sem einnig er á 7 undir pari. 

Louis Oosthuizen er á 7 undir pari en hann sigraði á Opna breska árið 2010 og hefur því unnið risamót. Norður-Írinn Rory McIlroy er á 6 undir pari en hann sigraði á Opna bandaríska árið 2011. 

Kylfingar eins og Koepka og McIlroy hafa burði til að spila frábæra hringi og því áhugavert að sjá hvort þeir geti sett pressu á lokaráshópinn.  

Fyrir stuðningsmenn Tiger Woods þá má geta þess að hann lék á 71 höggi og er í 27. sæti á pari samtals. 

Justin Rose hefur verið mjög einbeittur í mótinu.
Justin Rose hefur verið mjög einbeittur í mótinu. AFP
Brooks Koepka þarf á frábærum hringi að halda í kvöld.
Brooks Koepka þarf á frábærum hringi að halda í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert