Fyrsti risatitillinn hjá Woodland

Gary Woodland smellir kossi á bikarinn eftir sigurinn á opna …
Gary Woodland smellir kossi á bikarinn eftir sigurinn á opna bandaríska meistaramótinu. AFP

Bandaríkjamaðurinn Gary Woodland hrósaði sigri á sínu fyrsta risamóti í golfi þegar hann bar sigur úr býtum á opna bandaríska meistaramótinu sem lauk á Pebble Beach-vellinum glæsilega í Kaliforníu.

Woodland lék lokahringinn á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari og lauk keppni á 13 höggum undir. Bandaríkjamaðurinn Brook Koepka sem hafði unnið opna bandaríska mótið 2017 og 2018 varð annar á 10 höggum undir pari og Englendingurinn Justin Rose, Spánverjinn Jon Rahm ásamt Bandaríkjamönnunum Xander Schauffele og Chez Reavie urðu jafnir í þriðja sætinu á 7 höggum undir pari.

Rose gaf heldur betur á lokahringnum en eftir fyrstu holu á honum komst hann upp að hlið Woodlands í efsta sætið, 12 höggum undir pari.

Woodland innsiglaði sigurinn með því að fá fugl á 18. holunni.

„Ég var stoltur af sjálfum mér og halda ró minni og fullri stjórn og hafa ekki áhyggjur af því sem Koepka var að gera,“ sagði Woodland eftir sigurinn.

Tiger Woods, sem þrisvar sinnum hefur fagnað sigri á opna bandaríska meistaramótinu endaði í 21.-28. sæti á tveimur höggum undir pari. Tiger fór illa af stað á lokahringnum þar sem hann fékk fjóra skolla á fyrstu sex holunum. Hann náði hins vegar að fá sex fugla á síðustu tólf holunum og lauk keppni á 69 höggum, tveimur höggum undir pari.

Lokastaðan á mótinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert