Kepptu á sterkasta áhugamannamóti heims

Birgir Björn Magnússon.
Birgir Björn Magnússon. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórir íslenskir kylfingar tóku þátt á einu sterkasta áhugamannamóti heims, Opna áhugamannamótinu sem fram fer á hinu sögufræga golfsvæði við Portmarnock á Írlandi. Það dregur að sér sterkustu áhugakylfinga heims að því er segir á heimasíðu Golfsambands Íslands.

Alls voru 288 keppendur skráðir til leiks, en fyrstu tvo keppnisdagana fer fram höggleikur og síðan tekur við holukeppni. Íslensku kylfingarnir fjórir náðu ekki að komast inn í sjálfa holukeppnina eftir höggleikinn og eru því úr leik.

Birgir Björn Magnússon, GK, var efstur þeirra í 92. sæti eftir að hafa spilað samtals á sex höggum yfir pari. Gísli Sveinbergsson, GK, spilaði á sjö höggum yfir pari og hafnaði í 110. sæti. Rúnar Arnórsson, GK, hafnaði í 160. sæti á níu höggum yfir pari og Aron Snær Júlíusson, GKG, hafnaði í 221. sæti á 12 höggum yfir pari.

Sögufrægir keppendur á borð við Bobby Jones, Sergio Garcia og José María Olazábal hafa fagnað sigri á þessu móti. Sigurvegarinn fær boð um að taka þátt á þremur af alls fjórum risamótum atvinnukylfinga í karlaflokki. Opna mótinu, Opna bandaríska meistaramótinu og Masters-mótinu á Augusta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert