Fimm fyrrverandi Íslandsmeistarar taka þátt

Rúnar Arnórsson úr Keili Hafnarfrði og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR. Íslandsmeistarar …
Rúnar Arnórsson úr Keili Hafnarfrði og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR. Íslandsmeistarar karla og kvenna í holukeppni 2018. Ljósmynd/GSÍ

Fimm fyrrverandi Íslandsmeistarar í holukeppni eru á meðal keppenda á Securitas-mótinu, Íslandsmótinu í holukeppni, sem fram fer á Garðavelli á Akranesi 21.-23. júní. Um er að ræða þriðja mótið af alls fimm í mótaröð þeirra bestu á keppnistímabilinu 2019. 

Þrír fyrrverandi meistarar eru í karlaflokki og tveir í kvennaflokki. Rúnar Arnórsson úr GK mætir í titilvörnina líkt og Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR. Kristján Þór Einarsson úr GM hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í holukeppni. Fyrst árið 2009 og í annað sinn árið 2017. Hann er meðal keppenda líkt og Arnór Ingi Finnbjörnsson úr GR sem sigraði árið 2011. Í kvennaflokki er Þórdís Geirsdóttir úr Keili á meðal keppenda en hún hefur tvívegis sigrað á þessu móti. 

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að keppendum er raðað upp í fjögurra manna riðla. Í karlaflokki eru 32 keppendur í alls átta riðlum. Sigurvegarinn úr hverjum riðli kemst í átta manna úrslit. 

Í kvennaflokki eru keppendur alls 23. Riðlarnir eru því alls sex og í einum þeirra eru þrír keppendur. Sigurvegararnir úr hverjum riðli fara í átta manna úrslit ásamt tveimur keppendum sem eru með bestan árangur í 2. sæti. 

Nánar má lesa um mótið, sem hefst á morgun á golf.is, HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert