Erfitt hjá Ólafíu og Woods

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Cheyenne Woods fóru ekki vel af stað á fyrsta hring á Dow Great Lakes Bay Invitational-mótinu á LPGA-mótaröðinni í golfi í dag. Mótið fer fram í Midland í Michigan-ríki. 

Kylfingar eru í tveggja manna liðum á mótinu. Ólafía og Woods þekkjast vel frá því að þær voru saman í Wake Forest-háskólanum. Tvo hringi mótsins leika kylfingarnir eftir fjórmennings leikfyrirkomulagi og hina tvo með betri bolta. 

Ólafía og Woods fóru mjög illa af stað og voru á fimm höggum yfir pari eftir átta holur. Þær bættu spilamennskuna til muna á síðari níu holunum og léku þær á samtals einu höggi yfir pari. Þær eru því á sex höggum yfir pari. 

Ólafía og Woods eru í 67. sæti af 71 liði. Brooke Henderson og Alena Sharp, báðar frá Kanada, eru efstar á fimm höggum undir pari og Any Yang og Mirim Lee frá Suður-Kóreu eru í öðru sæti á þremur höggum undir pari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert