Ég vil bara komast heim

Tiger Woods náði sér ekki á strik á The Open.
Tiger Woods náði sér ekki á strik á The Open. AFP

Tiger Woods náði sér ekki á strik á The Open-risamótinu í golfi sem byrjaði á Norður-Írlandi í gær. Kylfingurinn er úr leik eftir að hafa leikið tvo hringi á sex höggum yfir pari. Woods var að glíma við meiðsli í baki á mótinu og viðurkennir Bandaríkjamaðurinn að hann vilji einfaldlega komast heim til sín. 

„Ég vil bara slaka aðeins á og komast í burtu frá öllu. Ég fór í langt frí til Taílands eftir Opna bandaríska og svo fór ég beint í að undirbúa mig fyrir The Open. Ég er búinn að ferðast mikið, eytt miklum tíma í háloftunum og gist á mismunandi hótelum. Ég vil bara komast heim," sagði Woods í samtali við fjölmiðla í dag. 

„Þegar ég kem til baka verð ég bara að halda áfram að gera það sem ég hef verið að gera. Ég hef styrkt mig mikið síðastliðið ár og unnið með sjúkraþjálfunum til að líkaminn á mér sé í lagi. Ég þarf hins vegar að sætta mig við að ég sé ekki 23 ára lengur," sagði Woods. 

mbl.is