Hatton búinn að jafna við Holmes

Englendingurinn Tyrrell Hatton er á samtals tveimur höggum undir pari …
Englendingurinn Tyrrell Hatton er á samtals tveimur höggum undir pari í dag. AFP

Englendingurinn Tyrrell Hatton hefur byrjað annan daginn mjög vel á The Open-golfmótinu sem nú fer fram á Royal Portrush-vellinum á Norður-Írlandi. Eftur fyrstu sjö holurnar er Hatton sem stendur á tveimur höggum undir pari og samtals fimm höggum undir pari, líkt og Bandaríkjamaðurinn J.B Holmes sem var að hefja leik í dag.

Holmes spilaði best allra í gær og var á samtals fimm höggum undir pari en Hatton hefur nú jafnað hann í efsta sæti. Erik Van Rooyen frá Suður-Afríku hefur spilað best allra í dag á samtals þremur höggum undir pari eftir átta holur en hann er í 3.-5. sæti ásamt þeim Tommy Fleetwood frá Englandi og Shane Lowry frá Írlandi á fjórum höggum undir pari.

Margir kylfingar eiga eftir að hefja leik í dag en Tiger Woods, sem er á samtals sjö höggum yfir pari, hefur leik fljótlega og þá mun heimamaðurinn Rory McIlroy hefja leik í kringum 13-leytið. McIlroy átti afleitan gærdag og lék átta höggum yfir pari og þarf að spila sitt besta golf í dag til þess að komast í gegnum niðurskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert