Lowry öruggur sigurvegari The Open

Sigurvegarinn Shane Lowry fagnar pútti á The Open þegar sigurinn …
Sigurvegarinn Shane Lowry fagnar pútti á The Open þegar sigurinn nálgaðist. AFP

Írinn Shane Lowry var nú rétt í þessu að hrósa sigri á The Open-risamótinu í golfi á Royal Portrush-vellinum á Norður-Írlandi eftir að hafa verið meðal efstu manna frá fyrsta degi. Þetta er fyrsti sigur hans á risamóti á ferlinum.

Lowry spilaði lokahringinn á einu höggi yfir pari. Hann lék hringina fjóra samanlagt á 15 höggum undir pari, en besti árangur hans á risamóti þar til um helgina var annað sætið á Opna bandaríska meistaramótinu fyrir þremur árum.

Lowry var í öðru sæti eftir fyrsta hringinn á fimmtudag, höggi á eftir JB Holmes. Saman voru þeir svo í forystu að loknum öðrum hring. Lowry fór svo á kostum á þriðja hring, lék hann á átta höggum undir pari og var með fjögurra högga forystu fyrir lokahringinn. Þá forystu lét hann aldrei af hendi.

Á meðan fór hins vegar allt í hundana hjá JB Holmes, en hann lék lokahringinn í dag á 16 höggum yfir pari og hafnaði í 67. sæti eftir að hafa barist á toppnum allt þar til í dag.

Tommy Fleetwood hafnaði í öðru sæti á níu höggum undir pari, sex höggum á eftir Lowry, eftir að hafa spilað lokahringinn á þremur yfir. Tony Finau varð svo þriðji á sjö höggum undir pari. Enginn lék lokahringinn þó betur en Francesco Molinari, sigurvegarinn frá því í fyrra, en hann lék á fimm höggum undir pari og náði að komast upp í 11. sæti.

Fyrir mótið um helgina var Lowry í 33. sæti heimslistans, en í lok árs 2018 var hann í 75. sæti. Búast má við að hann taki stórt stökk á nýjum lista eftir helgi.

Shane Lowry fagnar sigrinum með kylfusveini sínum eftir lokapúttið.
Shane Lowry fagnar sigrinum með kylfusveini sínum eftir lokapúttið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert