Fagnaði á McDonalds

John Daly innan um áhorfendur á PGA-meistaramótinu 1991.
John Daly innan um áhorfendur á PGA-meistaramótinu 1991. AFP

Í Sögustundinni verður að þessu sinni farið tuttugu og átta ár aftur í tímann til Indianapolis í Bandaríkjunum. Þar skaust kylfingurinn litríki John Daly fram á sjónarsviðið þegar síðasta risamót ársins, PGA-meistaramótið, fór þar fram á Crooked Stick-vellinum 8.-11. ágúst árið 1991. John Daly sigraði á mótinu en aðdragandinn var lygilegur því kvöldið fyrir fyrsta hring var hann staddur heima hjá sér í Dardanelle í Arkansas-ríki.

Alla jafna eru kylfingarnir mættir á mótsstaðinn á mánudegi og kanna aðstæður í þrjá daga en risamótin eru ávallt frá fimmtudegi til sunnudags. Hinn lítt þekkti John Daly var níundi á biðlista inn í mótið og fátt benti til þess að hann fengi þar keppnisrétt. Daly slakaði því á heima hjá sér og gaf kylfusveininum, Dave Beighle, vikufrí en hann hélt til síns heima í Virginia-ríki.

Kvöldið fyrir fyrsta hring fékk Daly símtal frá PGA þar sem honum var tilkynnt að margir kylfingar hefðu boðað forföll og hann væri orðinn fyrstur á biðlista. Daly og þáverandi unnusta hans, Bettye, óku því af stað í BMW-bifreið sinni og keyrðu alla nóttina til Indianapolis. Eftir átta tíma akstur fékk Daly þær fréttir að eiginkona Nicks Price væri komin á fæðingardeildina og Price hafði um nóttina dregið sig út úr mótinu af þeim sökum.

Var í 168. sæti heimslistans

John Daly var geysilega hæfileikaríkur en hafði ekki látið mjög að sér kveða á landsvísu þegar að PGA-meistaramótinu kom. Hann var 25 ára gamall nýliði á mótaröðinni og var í 168. sæti á heimslistanum. Hann hóf árið 1991 í 223. sæti og hafði nokkurn veginn tekist að tryggja sér áframhaldandi keppnisrétt á PGA-mótaröðinni. Sem er ekki slæmt fyrir nýliða en var þó fyrst og fremst frammistöðunni í einu móti að þakka, þar sem hann náði 3. sæti.

Engu að síður voru aðeins örfáir sem vissu hver Daly var. Hann mætti til leiks án kylfusveins, umboðsmanns eða fjölmiðlafulltrúa. Hann mætti nánast eingöngu með kylfurnar sínar, óvenjulega hárgreiðslu, mikla hæfileika og rétta viðhorfið. Áðurnefndur Price lánaði honum reyndan kylfusvein, Jeff Medlen, sem skyndilega stóð uppi verkefnalaus á keppnisstaðnum.

John Daly fagnar sigri á The Open Championship á Old ...
John Daly fagnar sigri á The Open Championship á Old Course í St. Andrews árið 1995. Hann hefur sigrað á tveimur risamótum á skrautlegum ferli. Reuters

Óttaðist ekkert

Vafalaust hefur nærvera Medlens hjálpað mikið til í mótinu þar sem Daly setti á svið hálfgerða sýningu. Gífurleg högglengd hans nýttist til fulls á hinum langa Crooked Stick-velli og gat hann slegið yfir ýmsar hindranir en keppinautar hans gátu ekki leikið það eftir. Daly lét bara vaða nánast í hverju einasta höggi og virtist ekki óttast það að gera mistök. Hann tók oftar en ekki driver á teig og sló að meðaltali 303 jarda með þeirri kylfu. Honum gekk vel að hitta brautirnar og hitti auk þess 54 flatir af 72 í tilskildum höggafjölda. Slík geta bjó vissulega í John Daly sem hafði orðið ríkismeistari aðeins 17 ára en fáir reiknuðu með að svo lítt reyndur kylfingur gæti sýnt sínar bestu hliðar undir þeirri pressu sem fylgir risamótunum.

Sá högglengsti sem Nicklaus hafði séð

Nokkrum sinnum hefur það þó gerst að nánast óþekktir kylfingar sigra á risamótunum í langri sögu íþróttarinnar. Líklega hefur þó enginn gert það með jafn miklum glæsibrag og Daly gerði árið 1991. Hann gerði nánast allt vitlaust á mótsstaðnum og áhorfendur einfaldlega elskuðu hann. Hegðun hans var óvenjuleg og á lokadeginum þegar hann var í forystu, var Daly enn að gefa af sér og fagna með áhorfendum.

Goðsögnin Jack Nicklaus kom við í útsendingarklefa CBS til að sjá Daly slá á sjónvarpsskjánum. „Almáttugur. Þvílíkur kraftur. Ég hef aldrei á ævinni séð nokkurn mann slá jafn langt,“ sagði þessi margfaldi meistari og slóst í aðdáendahópinn því hann skildi eftir miða í skáp Dalys í búningsklefanum með hvatningarorðum fyrir lokadaginn.

Clinton hreifst með

Taktar og framkoma Johns Dalys á PGA-meistaramótinu 1991 voru með óvenjulegasta móti og fyrir vikið þykir sigurinn enn merkilegri. Daly gaf sér nægan tíma til að sinna aðdáendum að mótinu loknu og eyddi tveimur og hálfum tíma í myndatökur og áritanir eftir að hafa veitt sigurlaununum móttöku. Því næst fagnaði hann með því að panta limósínu, fór í bílalúgu á McDonalds og sötraði nokkra bjóra með.

Þáverandi ríkisstjóri í Arkansas, Bill Clinton, er kylfingur og mikill áhugamaður um golf. Hann réð sér vart fyrir kæti þegar sigurinn var í höfn og gjörði kunnugt daginn eftir sigur Daly að dagurinn (11. ágúst) yrði framvegis kallaður „John Daly-dagurinn“.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 31. desember 2011. 

John Daly í keppni í sumar. Í seinni tíð hefur ...
John Daly í keppni í sumar. Í seinni tíð hefur afar litríkt fataval verið áberandi hjá kappanum sem er með samning við Loudmouth. AFP
mbl.is