Barátta GR-inga á toppnum

Guðmundur Ágúst Kristjánsson í Grafarholtinu.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson í Grafarholtinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, úr GR, skaust upp í efsta sætið á Íslandsmótinu í golfi fyrir lokadaginn með góðri spilamennsku við krefjandi aðstæður í dag. Andri Þór Björnsson einnig úr GR er tveimur höggum á eftir. 

Guðmundur lék á 68 höggum annan daginn í röð og er samtals á fimm undir pari. Guðmundur var kominn fimm högg undir pari eftir sjö holur í dag. Hann gaf nokkuð eftir á seinni níu en þó ekki meira en aðrir því aðstæður voru erfiðar. Vindur var töluvert mikill og erfitt að reikna hann út. Auk þess var kalt úti á velli og í raun sankallað gluggaveður í borginni í dag. Guðmundur lauk leik á þremur undir pari. 

Andri var á þremur yfir pari í dag eða 74 höggum. Hann átti frábæran dag í gær og var á 66 höggum en hann er samtals á þremur undir pari. Hvorki Guðmundur né Andri hafa orðið Íslandsmeistarar þótt þeir hafi verið á meðal bestu kylfinga landsins í nokkur ár. 

Arnar Snær Hákonarson, þriðji GR-ingurinn verður með þeim í síðasta ráshópi á morgun. Hann er samtals á tveimur undir pari. Arnar var á 69 höggum í dag. Hann hefur í raun leikið virkilega vel á Íslandsmótinu ef frá er talinn ein hola. Hann fékk níu högg á 15. holuna sem er par 5 á fyrsta keppnisdegi. 

Fleiri eru á tveimur undir pari samtals eins og Arnar Snær. Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG er á tveimur undir en hann átti besta hring dagsins á 67 höggum. Frábært skor við erfiðar aðstæður. 

Haraldur Franklín Magnús úr GR er einnig á tveimur undir. Hann var á 72 höggum í dag og náði sér ekki almennilega á strik. Þessir þrír eru engu að síður aðeins þremur höggum á eftir efsta manni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert