Sló eins og herforingi á fyrri níu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson brenndi af nokkrum stuttum púttum í dag.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson brenndi af nokkrum stuttum púttum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR er ánægður með sláttinn en óánægður með púttin eftir fyrstu þrjá daga Íslandsmótsins í golfi í Grafarholti. Hann hefur tveggja högga forskot á Andra Þór Björnsson fyrir lokadaginn á morgun. 

„Þetta hefði getað verið mun betra. Ég setti niður gott pútt á fjórtándu en annars klikkaði ég á nokkrum púttum sem voru innan við tvo metra. En ég sló eins og herforingi, framan af alla vega, og nýtti léttu holurnar á fyrri níu holunum. En svo var þetta erfitt á seinni níu holunum og maður gerði kannski ekki nógu vel á holunum þar sem vindurinn var mestur og erfiðastur,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is spjallaði við hann í Grafarholtinu. 

Voru púttin verri í dag en á fyrstu tveimur hringjunum? „Ég hef verið að pútta frekar illa. Þau voru í takti við fyrstu tvo dagana. En það getur verið erfitt að pútta í roki á hröðum flötum,“ sagði Guðmundur og gat ekki neitað því að það hafi verið kalt úti á velli í dag. 

„Já það var vel kalt. En það var aðallega rokið sem gerði manni erfitt fyrir og mér fannst kylfuvalið vera virkilega erfitt.“

Guðmundur segir að sín leikáætlun fyrir morgundaginn sé sú sama og vanalega. „Fara út á völl og gera sitt besta.“

Guðmundur sá sjálfur um golfpokann í dag en var með kylfubera, Þorvald Frey, fyrstu tvo dagana. Var hann feginn að losna við Þorvald? 

„Nei. Hann var í brúðkaupi. Það þýðir ekki að fá hvern sem er til að vera með pokann,“ sagði Guðmundur og sagði að Þorvaldur verði mættur aftur á vaktina á morgun þegar Guðmundur leikur í síðasta ráshópi með Andra Þór Björnssyni og Arnari Snæ Hákonarsyni. 

mbl.is