Parið átti sviðið í Grafarholti

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson á Grafarholtsvelli.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson á Grafarholtsvelli. Ljósmynd/seth@golf.is

„Ég á flug kl. 7.20 [í dag]. Skutlar þú mér ekki upp á völl?“ segir Guðrún létt í bragði. Guðmundur brosir og tekur vel í það. Það er í nógu að snúast hjá golfparinu og atvinnukylfingunum Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni sem í gærkvöld gátu fagnað Íslandsmeistaratitlunum í golfi á iðagrænum Grafarholtsvelli.

Guðrún Brá varði þar með titilinn frá því í Vestmannaeyjum í fyrra og Guðmundur Ágúst vann mótið í fyrsta sinn og varð þar með 37. karlinn til þess að landa Íslandsmeistaratitli í höggleik. Segja má að þeim hafi gengið flest í hag á golfvellinum síðasta árið, hvort sem það tengist því eitthvað að þau hófu einmitt samband sitt fyrir rúmu ári. Það hlýtur að vera einsdæmi að kærustupar hampi Íslandsmeistarabikurunum saman:

„Þegar við löbbuðum upp að 17. flöt spurði ég einmitt mömmu hvort að hún héldi að par hefði orðið Íslandsmeistari á sama tíma. Hún hló nú bara,“ segir Guðrún eftir að þau Guðmundur settust niður með Morgunblaðinu í Grafarholtinu í gær. „Ég vonaði auðvitað bara að hann myndi vinna og ég vona að hann hafi hugsað það sama,“ bætir hún við létt, þegar talið berst að því hvort þau hafi eitthvað náð að fylgjast með gengi hvort annars yfir helgina. „Mér fannst ég ekkert þurfa að fylgjast með hvað hún væri að gera. Hefði ég mátt það þá hefði ég sett pening á að hún myndi vinna,“ segir Guðmundur.

Nánar er rætt við Íslandsmeistaraparið Guðrúnu og Guðmund á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »