Góður lokahringur skilaði Axel öðru sætinu

Axel Bóasson
Axel Bóasson mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson hafnaði í 2-3. sæti á Åhus KGK ProAm 2019 mótinu í Svíþjóð en það er hluti af Nordic Tour mótaröðinni. Var þetta hans besti árangur þar í ár.

Axel lék frábærlega á lokahringnum í dag eða á fimm höggum undir pari en hann fékk sex fugla og aðeins einn skolla. Hann fór því upp um 13. sæti og endaði að lokum í 2.-3. sætinu með danska kylfingnum Nicolai Kristensen. Þeir voru báðir á alls þremur höggum undir pari, fimm höggum á eftir sigurvegaranum, Jesper Kennegård frá Svíþjóð.

Axel var einn þriggja íslenskra kylfinga sem tóku þátt í mótinu en auk hans tóku þeir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson þátt. Haraldur endaði í 39. sæti en Guðmundur komst ekki áfram í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

mbl.is