McIlroy fékk mesta verðlaunafé sögunnar

Rory McIlroy með verðlaunagrip sinn í kvöld.
Rory McIlroy með verðlaunagrip sinn í kvöld. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy stóð uppi sem sigurvegari á Tour Championship-mótinu, lokamóti PGA-mótaraðarinnar í golfi. Hann var þar með Fedex-stigameistari og fékk hæsta verðlaunafé í sögu mótaraðarinnar.

McIlroy spilaði lokahringinn í dag á 66 höggum eða fjórum höggum undir pari og var samtals á 18 höggum undir pari. Enginn stóðst honum snúninginn á lokahringnum og var hann fjórum höggum á undan Xander Shauffele sem varð annar og fimm höggum á undan þeim Justin Thomas og Brooks Koepka.

Keppni á þriðja hring var frestað í gær vegna eldinga og þurfti McIlroy að spila 31 holu í dag, en það virtist ekki taka neina orku frá honum. Hann fagnaði því sigri og fékk dágóða summu í vasann eða 15 milljónir dollara, sem nemur um tveimur milljörðum króna.

McIlroy er nú eini kylfingurinn í sögunni á eftir Tiger Woods sem vinnur þetta lokastigamót tvisvar síðan það var fyrst haldið árið 2007.

mbl.is