Guðrún fékk tæplega 50 þúsund

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék lokahringinn á WPGA-meistaramótinu á Englandi í dag á fimm höggum yfir pari vallarins og lauk keppni í 40. sæti. Leikið var á Stoke-by-Nayland-vellinum en hann er í samnefndu þorpi í Sussex, skammt norðaustur af London.

Guðrún var í 27.-38. sæti eftir tvo daga og fór örugglega í gegnum niðurskurðinn á samtals þremur höggum yfir pari en 52 efstu af 105 keppendum komust á lokahringinn í dag. Guðrún lék hann á 77 höggum og endaði þar með í 40. sæti á 8 höggum yfir pari.

Á vef mótsins kemur fram að Guðrún fái 346 evrur í sinn hlut, eða rétt tæplega 50 þúsund krónur, fyrir þennan árangur.

Mótið var liður í LET-Access-mótaröðinni, þeirri næststerkustu í Evrópu og Manon de Roey frá Belgíu stóð uppi sem sigurvegari á samtals sex höggum undir pari, einu höggi á undan þremur næstu keppendum.

mbl.is