Langt á eftir efstu konum

Ólafía Þórunn og Valdís Þóra hófu leik í dag á …
Ólafía Þórunn og Valdís Þóra hófu leik í dag á 2. stigs úrtökumóti fyrir LPGA-mótaröðina í Bandaríkjunum. Ljósmynd/GSÍ

Atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hófu í dag leik á 2. stigi úr­töku­móts­ fyr­ir LPGA-at­vinnu­mótaröðina í Banda­ríkj­un­um. Þær kepptu báðar á Pant­her-vellinum í Venice í Flórída í Bandaríkjunum en Ólafía Þórunn lék á tveimur höggum yfir pari á meðan Valdís Þóra lék á þremur höggum yfir pari.

Ólafía Þórunn spilaði ágætisgolf, paraði sextán holur en fékk skolla á fyrstu og sextándu braut, og er í 109.-130. sæti. Valdís Þóra byrjaði afar illa og fékk tvo skolla og tvo tvöfalda skolla á fyrstu átta holunum. Þar á eftir fylgdu fjórir fuglar á síðustu tíu brautunum og er hún í 131.-147. sæti.

Olivia Cowan frá Þýskalandi er með forystu eftir fyrsta keppnisdag á átta höggum undir pari. Min A Yoon frá Suður Kóreu kemur þar á eftir á sjö höggum undir pari og Elizabeth Nagel frá Bandaríkjunum er þriðja á sex höggum undir pari. Leikn­ir verða fjór­ir keppn­is­hring­ir, 72 hol­ur, og kom­ast 15-25 efstu áfram inn á loka­úr­töku­mótið.

Það er því ljóst að bæði Ólafía og Valdís þurfa að spila miklu betur, ætli þær sér inn á lokaúrtökumótið, en eins og staðan er í dag þurfa þær að vera á samtals þremur höggum undir pari til þess að vera í 17.-29. sæti.

Þeir kepp­end­ur sem kom­ast ekki áfram á loka­úr­töku­mótið hafa samt sem áður tryggt sér keppn­is­rétt í Sy­metra-at­vinnu­mótaröðinni, sem er sú næst­sterk­asta á eft­ir LPGA-mótaröðinni.

mbl.is