Ólafía og Valdís keppa á 2. stigi úrtökumótsins fyrir LPGA

Valdís Þóra og Ólafía Þórunn.
Valdís Þóra og Ólafía Þórunn. Ljósmynd/GSÍ

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hefja í dag keppni á 2. stigi úrtökumótsins fyrir LPGA-atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum.

Leiknir verða fjórir keppnishringir, 72 holur, og komast 15-25 efstu áfram inn á lokaúrtökumótið. Þeir keppendur sem komast ekki áfram á lokaúrtökumótið hafa samt sem áður tryggt sér keppnisrétt í Symetra-atvinnumótaröðinni, sem er sú næststerkasta á eftir LPGA-mótaröðinni.

Keppnisvellirnir eru tveir, Bobcat og Panther, og spila þær Ólafía og Valdís báðar á Panther-vellinum.  Valdís Þóra hefur leik kl. 13:17 að íslenskum tíma og Ólafía Þórunn hefur leik kl. 16:24. 

Valdís Þóra komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins sem fram fór í lok ágúst. Valdís Þóra endaði í 21.-36. sæti en alls reyndu 360 keppendur að komast í gegnum 1. stig úrtökumótsins.

Ólafía Þórunn var með keppnisrétt í Symetra-atvinnumótaröðinni á þessu tímabili, auk þess sem hún var með takmarkaða þátttöku í sjálfri LPGA-mótaröðinni. Hún fer því beint inn á 2. stig úrtökumótsins.

mbl.is