Hovland setti met í PGA-mótaröðinni

Viktor Hovland.
Viktor Hovland. AFP

Norski kylfingurinn Viktor Hovland setti í nótt nýtt met í PGA-mótaröðinni í golfi en honum tókst að spila 18. hringinn í röð í mótaröðinni undir 70 höggum.

Hovland er meðal keppenda á CJ Cup-mótinu í S-Kóreu og hann lék fyrsta hringinn á 69 höggum og þar með bætti hann met í PGA-mótaröðinni.

Engum kylfingi í mótaröðinni hefur tekist að spila 18 hringi í röð undir 70 höggum en Bob Estes náði að spila 17 hringi í röð undir 70 höggum árið 2001.

Skor Hovlands á síðustu 18 hringjunum í PGA-mótaröðinni er: 64, 69, 66, 69, 65, 69, 69, 68, 64, 66, 66, 64, 65, 68, 68, 68, 64, 69.

„Þetta gerist í kynslóð með Tiger Woods, Rory McIlroy, Brooks Koepka og Phil Mickelson. Ég er mjög hrifinn af því að við eigum strák frá Ekeberg sem er svo brjálæðislega góður,“ sagði Norðmaðurinn Marius Thorp, fyrrverandi atvinnukylfingur sem lýsir á Eurosport, í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.

Hovland, sem er 22 ára gamall og gerðist atvinnumaður á þessu ári, er í 94. sæti á heimslistanum en á toppnum er Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka, sem lék fyrsta hringinn á CJ Cup-mótinu á 69 höggum eins og Hovland.

mbl.is