Andri og Guðmundur í toppbaráttu á Spáni

Andri Þór Björnsson.
Andri Þór Björnsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kylfingarnir Andri Þór Björnsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru báðir í toppbaráttu eftir fyrsta hring á annars stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Fimm íslenskir kylfingar komust á annað stigið. 

Andri lék hringinn í dag á 66 höggum eða sex höggum undir pari og er þremur höggum á eftir Suður-Afríkumanninum JC Ritchie sem er í forystu. Er Andri í áttunda sæti. Guðmundur Ágúst lék á 68 höggum og er í 13. sæti. Leika þeir á Desert Springs-vellinum, eins og Rúnar Arnórsson sem lék á 70 höggum, tveimur höggum undir pari. 

Haraldur Franklín Magnús náði sér ekki á strik í dag. Hann lék fyrsta hringinn á Alenda Golf-vellinum á 74 höggum eða tveimur höggum yfir pari og er í 50. sæti. Bjarki Pétursson leikur á Bonmont-vellinum en hann hefur ekki lokið leik í dag. Allir vellirnir sem leikið er á eru á Spáni. 

Um 20 efstu kylfingarnir á hverjum velli fara áfram í þriðja og síðasta úrtökumótið. 

mbl.is