Tveir Íslendingar komnir áfram

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er kominn áfram á lokstig úrtökumótanna fyrir …
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er kominn áfram á lokstig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR og Andri Þór Björnsson úr GR eru komnir áfram á lokastig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla í golfi. Þeir tryggðu sig báðir inn á lokastig úrtökumótanna í gær þegar lokahringur 2. stigs úrtökumótsins kláraðist á Desert Springs-vellinum í Almería á Spáni.

Leiknir voru fjórir hringir á Desert Springs-vellinum en Guðmundur hafnaði í 9.-11. sæti á samtals tveimur höggum undir pari.  Andri Þór endaði í 11.-15. sæti á pari en tuttugu efstu  kylfingarnir komust áfram á lokastig úrtökumótsins.

Rúnar Arnórsson tók einnig þátt á 2. stigs úrtökumótinu og lék á sama velli og þeir Andri og Guðmundur en Rúnar hafnaði í 52. sæti og er úr leik. Haraldur Franklín Magnús og Bjarki Pétursson ljúka leik í dag en Haraldur leikur á Alenda-vellinum  á Alicante á meðan Bjarki spilar á Bonmont Terres Noves-vellinum í Tarragona.

Á lokastigi úrtökumótanna verða leiknir sex hringir og munu 25 efstu kylfingarnir öðlast fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Á lokastiginu eru einnig sæti í bæði á Áskorendamótaröð Evrópu þar sem Guðmundur Ágúst er með fullan keppnisrétt.

Andri Þór Björnsson tryggði sér einnig sæti á lokaúrtökumótinu.
Andri Þór Björnsson tryggði sér einnig sæti á lokaúrtökumótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert