Skrifa nýjan kafla í golfsögu Íslands

Guðmundur Ágúst Kristjánsson á æfingahring á Hillsvellinum.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson á æfingahring á Hillsvellinum. Ljósmynd/golf.is

Andri Þór Björnsson, GR, Bjarki Pétursson, GKB, og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, eru á meðal 156 kylfinga sem keppa um 25 sæti í sterkustu atvinnumótaröð Evrópu næstu daga.

Lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar fer fram á Lumine-golfsvæðinu við Tarragona á Spáni og hefst á morgun. Þar verða leiknir sex keppnishringir en keppnisvellirnir eru tveir, Lakes og Hill. Andri Þór, Bjarki og Guðmundur Ágúst skrifa nýjan kafla í golfsögu Íslands. Aldrei áður hefur Ísland átt þrjá kylfinga á lokaúrtökumótinu. 

Á 5. og 6. keppnisdegi fá 70 efstu tækifæri til að gera atlögu að 25 efstu sætunum sem tryggja sæti á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Lokakeppnisdagarnir fara fram á Lakes-vellinum. 

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, og Björgvin Sigurbergsson, GK, eru þeir einu sem hafa náð inn á lokaúrtökumótið. Birgir Leifur hefur 14 sinnum komist inn á lokaúrtökumótið og er sá eini frá Íslandi sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt í Evrópumótaröðinni í karlaflokki. Björgvin og Birgir Leifur voru saman á lokaúrtökumótinu árið 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert