Bakslag hjá Íslendingunum

Andri Þór Björnsson lék best Íslendinganna í dag.
Andri Þór Björnsson lék best Íslendinganna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensku kylfingarnir féllu nokkuð niður keppendalistann á þriðja og lokastigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla í golfi á Spáni í dag. 

Andri Þór Björnsson lék best í dag en hann var á 71 höggi sem er par vallarins en Guðmundur Ágúst Kristjánsson var á 75 höggum og Bjarki Pétursson notaði 77 högg. Aðstæður voru erfiðar fyrir kylfingana í dag vegna hvassviðris samkvæmt upplýsingafulltrúa GSÍ sem er á staðnum og fylgist með. 

Keppendafjöldi verður skorinn niður eftir hringinn á morgun. Þá hafa kylfingarnir leikið 72 holur og 36 holur á hvorum velli. Þá verður meira að marka stöðuna en eftir daginn í dag er enginn Íslendinganna nógu ofarlega til að ná í gegnum niðurskurðinn. 

Þar sem vellirnir geta hentað mönnum misjafnlega þá gætu Íslendingarnir hæglega farið upp listann á morgun, að því gefnu að þeir nái sér á strik. 

Guðmundur Ágúst er í 82.-96. á -1 samtals eftir að hafa leikið þrjá fyrstu hringina á 72-67-75. Er hann höggi frá niðurskurðarlínunni eins og hún er núna. 

Bjarki er í sæti nr. 121.-132. sæti á +2 eftir að hafa leikið hringina á 74, 66 og 77.

Minnstar sveiflur hafa verið hjá Andra en hann hefur hins vegar ekki náð lágu skori ennþá. Andri er í 121. 132. á +2 eins og Bjarki en hefur leikið á 72, 73 og 71 höggi. 

Bjarki og Andri þurfa á mjög góðu skori að halda á morgun til að eiga möguleika. 

mbl.is