Aldrei fleiri kylfingar á Íslandi — Ungum fækkar

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Íslandsmeistari í golfi.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Íslandsmeistari í golfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls voru 17.846 kylfingar skráðir í 61 golfklúbb víðs vegar um Ísland 1. júlí í sumar og hafa þeir aldrei verið fleiri. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Golfsambands Íslands. Þar segir að kylfingum hafi fjölgað um tæplega 700 frá því í fyrra og á það bent að aðeins Knattspyrnusamband Íslands sé með fleiri iðkendur þegar horft sé til sérsambanda hér á landi.

Fjölgunin er mest hjá kylfingum 60 ára og eldri en þar varð um 7% aukning frá síðasta ári. Hins vegar fækkaði í hópi kylfinga 10 — 19 ára, um 9%. Alls eru um 58% kylfinga 50 ára eða eldri.

Tveir af hverjum þremur kylfingum eru karlkyns og er meðalaldur þeirra 48 ár og meðalforgjöf 25. Hjá konunum er meðalaldurinn 52 ár og forgjöfin 35.

Golfklúbbur Reykjavíkur er fjölmennastur, með 3.232 kylfinga skráða 1. júlí, en Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar kemur næstur með 1.950 kylfinga og Golfklúbburinn Oddur þriðji með 1.464 skráða kylfinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert