Í toppbaráttu á eigin móti

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Tiger Woods hefur leikið vel á fyrri tveimur keppnisdögunum á sínu eigin móti, Hero World Challenge, sem fram fer á Bahama-eyjum. 

Tiger kom mótinu á fót árið 2000 og ágóðinn rennur til góðgerðarfélags sem Tiger heldur úti. Margir af snjöllustu kylfingum heims eru á meðal keppenda og láta gott af sér leiða. Iðulega er átján kylfingum boðið til keppni í mótinu. 

Patrick Reed frá Bandaríkjunum er efstur á samtals 12 undir pari eftir 36 holur. Hann hefur leikið báða hringina á 66 höggum. 

Gary Woodland sem sigraði á Opna bandaríska mótinu er á 9 undir pari. Svíinn Henrik Stenson á 8 undir eins og Spánverjinn Jon Rahm. 

Tiger kemur þar á eftir á 6 höggum undir pari og hefur leikið á 72 og 66 höggum. Justin Thomas og Rickie Fowler eru einnig á 6 undir. 

mbl.is