Komst áfram í Kenía

Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur
Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur mbl.is/Hari

Valdís Þóra Jónsdóttir komst áfram á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í golfi í dag en mótið fer fram í Kenía. 

Valdís er samtals á sex höggum yfir pari og sem stendur í 57. sæti. Ekki hafa allir kylfingar lokið öðrum hring en ljóst er að Valdís kemst áfram. Eins og sakir standa er nóg að vera á sjö yfir pari til að komast áfram og ljóst að niðurskurðarlínan mun ekki færast um tvö högg. 

Valdís kemur því til með að leika 36 holur til viðbótar. Þar sem um lokamótið er að ræða gefur það fleiri stig á stigalistann en hefðbundið mót og verðlaunafé er hærra. 

Með því að komast í gegnum niðurskurðinn tryggir Valdís sér því stig sem koma í góðar þarfir. Hún er alveg við það að tryggja sér fullan keppnisrétt á næsta ári en 70 efstu á stigalista ársins endurnýja keppnisrétt sinn á næsta ári.  Fyrir mótið var Valdís í 71. sæti á þeim lista. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert