Hörmungarbyrjun reyndist dýr

Valdís Þóra Jónsdóttir fór illa að ráði sínu í Kenía …
Valdís Þóra Jónsdóttir fór illa að ráði sínu í Kenía í morgun. Ljósmynd/Golf.is

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir lék sinn fjórða og síðasta hring í morgun á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í golfi en leikið var á Vipingo Ridge-vellinum í Kenía. Valdís var á samtals þremur höggum yfir pari fyrir lokahringinn og hún paraði fyrstu fjórar holurnar í morgun.

Eftir það fór að síga á ógæfuhliðina hjá íslenska kylfingnum. Valdís fékk þrefaldan skolla á fimmtu braut, skolla á sjöttu braut og tvöfaldan skolla á áttundu braut. Valdís fékk þrjá fugla og einn tvöfaldan skolla á síðustu níu holunum og lék á samtals fimm höggum yfir pari í dag.

Valdís lýkur því keppni á samtals átta höggum yfir pari en hún var á þremur höggum yfir pari fyrir lokahringinn í morgun. Valdís er sem stendur í 50.-52. sæti en enn þá eiga margir kylfingar eftir að ljúka leik.

mbl.is