Tiger vann aftur en munurinn áfram sá sami

Justin Thomas og Tiger Woods fagna sínum sigri í Melbourne …
Justin Thomas og Tiger Woods fagna sínum sigri í Melbourne í nótt. AFP

Alþjóðlega liðið er áfram með þriggja vinninga forskot á lið Bandaríkjanna í Forsetabikarnum í golfi í Melbourne í Ástralíu eftir að öðrum keppnisdeginum af fjórum lauk í nótt.

Alþjóðlega liðið, skipað kylfingum frá Asíu, Afríku og Eyjaálfu, var 4:1 yfir eftir fyrsta daginn og eftir að liðin fengu tvo og hálfan vinning hvort í nótt er staðan 6,5 gegn 3,5 þegar keppnin er hálfnuð.

Munurinn hefði getað verið enn meiri því bandaríska liðið náði að bjarga tveimur og hálfum vinningi með góðum tilþrifum á ögurstundum í einvígjunum.

Tiger Woods og Justin Thomas unnu sinn leik og Tiger, sem er fyrirliði bandaríska liðsins, fyrsti spilandi fyrirliðinn í 25 ár, hefur þar með unnið báðar viðureignir sínar í keppninni.

Úrslit leikjanna á öðrum degi, alþjóðlega liðið á undan:

Louis Oosthuizen og Adam Scott unnu Dustin Johnson og Matt Kuchar 3/2.

Adam Hadwin og Joaquin Niemann töpuðu fyrir Patrick Cantley og Xander Schauffele 1/0.

Abraham Ancer og Marc Leishman unnu Patrick Reed og Webb Simpson 3/2.

Byeong Hun An og Hideki Matsuyama töpuðu fyrir Tiger Woods og Justin Thomas 1/0.

Sungjae IM og Cameron Smith gerðu jafntefli við Rickie Fowler og Gary Woodland.

mbl.is