Bandaríkjamenn saxa á forystuna

Cameron Smith fagnar í Melbourne í nótt.
Cameron Smith fagnar í Melbourne í nótt. AFP

Bandaríkjamenn náðu að saxa á forystu alþjóðlega liðsins í Forsetabikarnum í golfi í Melbourne í Ástralíu í nótt eftir að þriðja keppnisdegi af fjórum lauk. Alþjóðlega liðið, skipað kylfingum frá Asíu, Afríku og Eyjaálfu, er með tíu vinninga gegn átta fyrir lokadaginn á morgun.

Það var alþjóðlega liðið sem byrjaði daginn betur og var með níu vinninga gegn fimm eftir að keppt var í fjórbolta en Bandaríkjamenn færðu sig upp á skaftið í fjórmenningi og söxuðu á forystuna fyrir lokadaginn jafnvel þótt Tiger Woods, fyrirliði liðsins, hvíldi og væri ekki með.

Um tíma virtist bandaríska liðið jafnvel ætla að jafna metin er það var yfir í öllum fjórum keppnum seinni part dags. Að lokum héldu þeir Dustin Johnson og Gary Woodland út gegn Adam Scott og Louis Oosthuizen og Patrick Cantlay og Xanhder Schuffele unnu sömuleiðis gegn Sungjae Im og Cam Smith. Hins vegar tókst þeim Marc Leishman og Abraham Ancer úr alþjóðlegu sveitinni að jafna metin gegn Justin Thomas og Rickie Fowler, rétt eins og Ben An og Joaquim Niemann gerðu gegn Tony Finau og Matt Kuchar.

Það hefur aldrei gerst í sögu bikarsins að liðinu sem er undir fyrir lokadaginn takist að snúa taflinu við og þurfa Bandaríkjamenn því heldur betur að blása til sóknar, ætli þeir að vinna Forsetabikarinn í áttunda skiptið í röð. Alþjóðlega liðið vann síðast 1998.

mbl.is