Tiger leiddi Bandaríkjamenn til ótrúlegs sigurs

Tiger Woods með Forsetabikarinn.
Tiger Woods með Forsetabikarinn. AFP

Bandaríkin unnu Forsetabikarinn í golfi í Melbourne í Ástralíu með 16 vinningum gegn 14 eftir ótrúlega endurkomu á fjórða og síðasta keppnisdegi í nótt. Alþjóðlega liðið var 10:8 yfir eftir gærdaginn og hefur það aldrei gerst í sögu bikarsins að liði takist að vinna mótið þegar það er undir fyrir lokadaginn.

Tiger Woods, spilandi fyrirliði Bandaríkjanna, gaf tóninn strax í byrjun er hann vann Abraham Ancer en keppt var í tvímenning í nótt. Þeir Dustin Johnson, Patrick Cantlay, Xander Schauffele og Patrick Reed unnu allir sömuleiðis fyrir bandaríska liðið. Þá nældi Matt Kuchar í hálft stig eftir að hafa verið þremur holum undir gegn Louis Oosthuizen til að endanlega tryggja ótrúlegan sigur Bandaríkjamanna.

Bandaríkin hafa því unnið Forsetabikarinn í áttunda sinn í röð og í ellefta skiptið í 13 keppnum en alþjóðlega liðið hefur aðeins einu sinni náð að vinna keppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert